Mjög, mjög langt síðan síðast;)

Já það er augljóst að maður er ekki alveg nógu duglegur hér;) en núna langar mig að skrifa hérna. Margt búið að gerast síðan síðast, en síðasta færsla var í júní 2008!!!

Hannes Haukur varð 1 árs í júlí það ár (2008) og við héldum upp á það hér í Hfn heima hjá tengdó. Svo var smá kaffi fyrir alla fyrir norðan en við vorum þar um sumarið. Það var ættarmót, skátamót, afmæli og Hríseyjarhátíð þannig að það var nóg að gera;) Við vorum svo hér fyrir sunnan á Djúpavatni um verslunarmannahelgina, eins og við gerum alltaf. HH var í pössun hjá frænku sinni í júní en þegar ég fór að vinna í ágúst, eftir sumarfrí, voru þau að fara að flytja til Keflavíkur þannig að ég minnkaði við mig vinnuna og var heima þrjá morgna en hann var hjá ömmu sinni hina tvo. Jólin voru hér fyrir sunnan þetta árið og vorum við hjá þeim á Arnarhrauni, sem og um áramótin.

2009 var fínt ár. HH stækkaði og stækkaði og byrjaði í leikskóla í ágúst á Litla Hjalla. Honum líkar mjög vel þar og við erum líka mjög ánægð með þennan leikskóla. En annars þá fórum við mæðginin norður í febrúar í afmæli hjá mömmu en hún varð fimmtug. Tíðindalaust fram að sumri en ég var í sumarfríi í júní/júlí og fórum við norður í nokkra daga og vorum svo hér heima í einhvern tíma. Það var farið í eina útilegu og svo var það náttúrulega Djúpavatn um verslunarmannahelgina þar sem HH naut sín í botn, óð út í vatnið, settist í það, það vantaði bara upp á að hann færi að syndaShocking! Í ágúst var svo afmæli í Hrísey hjá mömmu og pabba og fórum við HH norður ásamt Hauki bróður og hans fjölskyldu. Það var fín ferð og mjög gaman og þökkum við kærlega fyrir okkur, þó seint séHalo Í nóvember var svo árshátíð Fjarðarkaupa sem var haldin á hótel Örk í Hveragerði. Það var frábær ferð og skemmtum við okkur mjög vel. Svo í desember var haldið norður í Hrísey til þess að vera þar um jól og áramót. Haukur og Unnur komu svo þann 28. og voru með okkur um áramótin. Þetta var fín ferð og góð afslöppun, eins og alltaf þegar maður kemur heim í ey.

2010 Já það er bara komið árið 2010!!! Og HH verður 3ja ára í júlí!! Ken jú bílív itt?? Ekki ég. Mér finnst svo stutt síðan að ég var upp á skurðstofu LSH þar sem hann var tekinn með keisaraskurði. En svona er þetta nú, tíminn líður og við verðum víst bara að fylgja með-það gengur víst ekki öðruvísi. En núna er kominn febrúar, nánar tiltekið 16. og hún Rúrí vinkona (og frænka Óla og HH) á afmæli í dag og óskum við henni innilega til hamingju með daginn.

Janúar leið bara ánægjulega, maður var svona bara að jafna sig á jólunum og koma sér aftur í rútínuna. HH er alltaf jafn ánægður í leikskólanum og finnur sig vel þar. Á morgun er öskudagur og þá mega þau koma í hverju sem er en annars eru þau alltaf í skólafötum. Við ætlum að fara í náttfötunum og hafa gamanTounge

Ætli ég hafi þetta nú nokkuð lengra núna, ágætis upprifjun hjá mér. Kk MN


MJÖG langt síðan síðast;-)

Jæja!! Maður verður nú bara að skammast sín. Hef ekki nennt að skrifa hér inn á þetta blogg ég veit ekki hvað lengi. En núna hef ég fréttir og þá er gaman að blogga.

Ég er farin að vinna aftur í Fjarðarkaupum og er að vinna allan daginn, virka daga. Ætla ekki að vinna um helgar í sumar og svo sé ég til hvernig ég vinn í vetur. Þetta eru þvílík viðbrigði frá því að vera bara heima með Hannesi Hauki, að vera að vinna allan daginn. En svona er þetta, maður getur ekki verið heima endalaust.

Hannes Haukur er í pössun hjá frænku sinni og ömmu sinni á morgnanna og svo eru þeir feðgar saman eftir hádegi þannig að þetta er bara fínt fyrir hann. Við ætluðum að setja hann til dagmömmu en það er bara orðið svo dýrt að maður bara hefur ekki efni á því. En vonandi kemst hann sem fyrst inn á leikskóla því þá þarf ekki að vera að fara inn í Reykjavík með hann á morgnanna því frænka hans býr þar.

Svo vorum við að fá okkur kött!! Já við af öllum:) Hann heitir Rasmus og er eins árs og voða ljúfur köttur og góður. Barngóður og er ekkert að fara með klærnar í HH en þeir eru voða mikið að leika sér eitthvað saman og bralla.

Ég gafst upp á hlaupaprógramminu eins og öllu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Þetta byrjaði voða vel og ég var alveg á því að halda áfram en svo bara datt ég niður í eitthvað "nenni þessu ekki" kjaftæði eins og ég geri oft/alltaf og er því hætt. En núna langar mig svo að gera eitthvað en þá hef ég bara ekki tíma út af vinnunni og svo er ég bara búin eftir daginn þegar ég kem heim. Kannski að maður reyni að koma sér eitthvað út úr húsi á kvöldin þegar HH er sofnaður í staðinn fyrir að leggjast fyrir framan sjónvarpið og sofna þar.

Hannes Haukur er bara flottur strákur og ég verð nú að monta mig aðeins. Hann er farinn að skríða eins og hann á að gera;) með báða fætur fyrir aftan sig og svo er hann farinn að geta staðið upp næstum því alls staðar og labbar með og í gær þá sleppti hann og stóð alveg sjálfur í nokkrar sekúntur;) en þetta er þó byrjunin. Hann borðar eins og fullorðinn maður liggur við, er svo duglegur að borða og fær núna að drekka hjá mér á morgnanna og kvöldin en annars fær hann vatn og fjörmjólk að drekka á daginn. Við erum farin að gefa honum það sama og við borðum á kvöldin, svona ef það er ekki of mikið kryddað og unnið og þá fær hann mat sem ég á tilbúinn handa honum inni í frysti. Það eru ekki mörg orð komin hjá honum, hann kemst ansi langt á uhh-inu sem hann notar eiginlega um allt.  En hann segir namm, namm og stundum mamma. Svo er það aah um dýrin en þá á hann að vera góður við þau. Aa eða taa er takk þegar hann er að rétta manni eitthvað. Svo dansar hann og syngur þegar hann heyrir í tónlist eða útvarpi. Hann klappar fyrir sjálfum sér ef honum finnst hann hafa verið duglegur. Hann er bara æði;) og ég er svo stolt af honum og elska hann.

En ég ætla þá ekki að hafa þetta lengra, bara nokkuð gott hjá mér;) Kv. María.


Bloggleti.

Veit ekki alveg af hverju ég er að reyna að vera með blogg þegar ég nenni aldrei að skrifa inn á það!! Ekki mjög gaman að skoða þessa síðu þar sem það er alltaf sama færslan inni á henni. Samt sem áður kemur fyrir að maður nennir að henda inn einni og einni færslu og þá kætast allir voða mikið, eitthvað að lesa:)

Annars er nú ekki mikið búið að gerast hér hjá mér. Við Hannes Haukur fórum eins og áður hefur verið nefnt norður til mömmu og pabba og vorum þar í nærri því tvær vikur í góðu yfirlæti. Hannes Haukur elskaði að hafa ömmu sína og afa til að snúast í kringum sig og mér fannst nú ekkert verra að fá smá dekur líka:)

Hef ekki meira að segja í bili, er ekki alveg komin yfir þessa bloggleti;)


Úti í ey

Hæ, hæ.

Það er nú ekki hægt að segja að ég sé að standa mig í þessu bloggi mínu. En maður reynir að henda inn færslum af og til, sérstaklega ef það er eitthvað fréttnæmt.

Við Hannes Haukur fórum norður í Hrísey á föstudaginn og erum búin að vera í góðu yfirlæti hjá mömmu og pabba/ ömmu og afa síðan þá. Á laugardaginn fórum við öll; ég, Hannes Haukur, mamma, pabbi, Narfi Freyr, amma, Svana, Agla og Bára á kaffihúsamessu í Sæborg sem var alveg rosalega skemmtileg. Þetta var kór frá Vestmannaeyjum sem var að syngja og þetta var bara svona afslappað og skemmtilegt, vöfflur og kaffi og sungið og klappað og haft gaman. Við vorum bara róleg hér heima á Hvítasunnudag en í gær, annan í Hvítasunnu, fórum við í sveitaferð í Bárðardalinn og heimsóttum Diku og Óla á Bjarnarstöðum og fengum að sjá litlu lömbin og kálfana. Hannesi Hauki fannst þetta voðalega spennandi en var náttúrulega ekkert að fatta hvað þetta var. Fannst þetta bara vera eitthvað sem hann ætti að vera góður við af því hann var alltaf að segja "aaa":)

Við höfum það annars bara mjög gott. Hannes Haukur dafnar hér hjá afa sínum og ömmu og finnst frábært að hafa einhvern svona til að stjana við sig. Hann "skríður" hér um allt og er farinn að gera tilraunir við það að standa upp við stofuborðið en það vantar ennþá herslumuninn á að það hafist.

Sendi bara góðar kveðjur til allra, kær kveðja María.


Langt síðan síðast.

Ég er nú ekki alveg að standa mig í þessu bloggi mínu. Það er bara þannig að þó svo að maður hafi allan tíma í heimi núna að þá hefur maður samt einhvern veginn engan tíma, skiliði? Manni finnst að maður ætti að vera voða duglegur, maður sé nú í rauninni ekki að gera neitt nema að hanga heima. Það er þó fjarri því að ég sé eitthvað aðgerðalaus hér á daginn. Það þarf að leika sér, fá sér að borða, leggja sig, fá sér aðeins meira að borða, fara út í vagn að leggja sig, fá sér að borða, leika sér, borða ennþá meira og svo að lokum að fara að sofa. Svo þegar tími gefst til þá tekur maður til, setur í þvottavélina, vaskar upp, moppar og skiptir um á rúmunum.

En ég hef svo sem alveg haft tíma fyrir sjálfa mig líka. Við Sunna erum ennþá duglegar í hlaupaprógraminu okkar og erum komnar upp í það að hlaupa í 5 mín. og labba í 2 og hálfa mín. á milli. Að vísu bara einn dagur búinn af þessu 5 mín prógrammi og ég hélt að ég myndi deyja!! Það eru svolítil viðbrigði að hlaupa í 5 mín heldur en í 3 mín. en við gátum það og erum bara nokkuð stoltar af okkur:)

Hannes Haukur er alltaf að uppgötva heiminn meira og meira. Hann er farinn að klappa saman lófunum, sýna hvað hann er stór og sterkur, þykjast vera týndur, vinka bless og margt annað sem saman stendur þá aðallega af hljóðum. Eitt hljóð er fyrir nammi, nammi, annað er fyrir allt það sem hann vill fá en fær ekki og svo eru fullt af hljóðum sem hafa held ég engan annan tilgang í rauninni en að hann er að fatta að nota röddina og raddböndin. Svaka duglegur strákur.  Svo er hann farinn að fá meira að borða og dafnar vel hér hjá okkur.

Ætli ég láti þetta ekki bara vera nóg í bili, maður má nú ekki vera of duglegur;) Kveðja til allra sem lesa, María.


Je minn hvað tíminn líður...

...en páskarnir eru búnir og vor og sumar bara á næsta leyti!! Sonur minn heldur bara áfram að stækka og stækka og er orðinn 8 mánaða gamall. Hann er svo duglegur og núna er það nýjasta hjá honum að veifa og segja, eða reyna að segja, bless bless:) Hann kann að sýna hvað hann er stór og sterkur og svo réttir hann upp hendina til þess að sýna hvað hann vill fá. Bara algjör engill.

Við Sunna erum ennþá duglegar í hlaupaprógramminu en tókum smá pásu um páskana en byrjuðum samt aftur kl. 9 á annan í páskum. GO við:)!! Í gær ákvað ég svo að byrja á því að skrifa matardagbók og komst að því að ég er ekki að borða nógu hollan mat. Verð að taka mig á í því.

Á mánudagskvöldið fór ég í bíó með Narfa Frey en hann var hér fyrir sunnan um páskanna. Við fórum að sjá Semi Pro og þvílík vitleysa!! Gat samt alveg hlegið smá en þetta er svona mynd fyrir hans aldur frekar en minn. Ég meina, það eru 10 ár á milli okkar, hann er bara rétt að verða tvítugur í haust en ég að verða 30!!! Smekkur manns breytist nú á 10 árum.

Læt þetta duga núna, kveðja María.


Frábær helgi afstaðin.

Já það má sko segja það að þessi helgi hafi verið frábær.  Ég byrjaði laugardaginn á því að fara til Sunnu kl. átta um morguninn, já um morguninn!!!, og við fórum út að skokka/labba. Það var alveg æðislegt og þvílíkt hressandi að byrja daginn svona. Þegar við vorum búnar með hringinn fór ég heim og vakti strákana mína og við tókum okkur til fyrir sundið. Sundtíminn var mjög fínn og Hannes Haukur stóð sig mjög vel. Það voru teknar myndir af þeim í kafi en minn maður var nú ekki neitt að fylgjast með þessari myndavél, botninn á sundlauginni var mun merkilegri en það náðist samt ágætis mynd af honum.  Eftir sundið fórum við heim og HH fékk sér smá kríu og eftir það var haldið í fermingarveislu hjá frændsystkinum hans. En þar með var nú dagurinn ekki búinn!! Eftir veisluna fórum við heim og HH náði að hvíla sig aðeins og svo kom Auðbjörg amma til þess að passa litla stubb af því við Óli vorum að fara í annað boð. Það var heima hjá Sunnu og Sigurjóni og vorum við að fara að borða með þeim og tveimur öðrum vinapörum, eða einu og hálfu þetta kvöld;) Það var hreint út sagt frábært og frábær matur eldaður af henni Sunnu. Takk kærlega fyrir okkur enn og aftur þetta var æðislegt:) Svo var nú sunnudagurinn bara tekinn í smá leti;) Var á fullu að lesa Harry Potter og er farin að nálgast endirinn sem mér líst nú ekki neitt á, langar ekki að vera búin með þessa bók. Svo um kvöldið var hringt í mig frá HH ráðgjöf en ég skráði mig hjá þeim og það er voða gott að vita af því að það er verið að vinna í umsóknum manns, en ekki að maður sendi inn umsóknir og svo ekki neitt meira. Svo verð ég bara að vera dugleg að fylgjast með auglýsingum frá þeim, hvort það komi eitthvert starf sem mér líst vel á og langar að sækja um.

Svo er bara kominn mánudagur og ný vika hafin og ný tækifæri framundan:) Maður verður bara að bera sig eftir þeim, ekki alltaf sem þau koma bara til manns. En þetta er nú komið nóg hjá mér núna. Kveðja til allra sem lesa mig;) María.


Ákvað að búa til nýtt blogg.

Hæ, hæ. Já ég ákvað að búa mér til nýtt blogg, var hjá blogcentral.is, þar sem að mér líkuðu ekki breytingarnar sem gerðar voru þar. Vona bara að þetta blogg eigi eftir að reynast mér vel. Á hinni síðunni var ég nú ekki neitt voðalega dugleg að skrifa inn færslur en margt hefur drifið á daga mína frá síðustu færslu.

Hannes Haukur er að verða 8 mánaða gamall og er orðinn 8.5kg!!! og 69 cm!! Ekkert smá sem hann rifnar út hjá okkur. Hann tók líka þennan þvílíka kipp í vexti þegar ég byrjaði að gefa honum að borða með brjóstamjólkinni. Núna er hann farinn að fá graut, ávexti; banana, epli, vínber, melónu og grænmeti eins og brokkólí og blómkál og sætar kartöflur og gulrætur. Einnig er hann farinn að fá fisk og eitthvað aðeins kjöt en við erum bara rétt að byrja að gefa honum það. Svo er hann farinn að sitja einn og veltir sér út um allt gólf. Hann er blaðrandi allan daginn og liggur við ný hljóð að koma á hverjum degi. Hann er bara algjör gullmoli og ég elska hann svo mikið og er svo stolt af honum.

Af okkur skötuhjúunum er það að frétta að það er eiginlega ekkert nýtt búið að gerast hjá okkur!!:) Okkar líf heldur bara áfram í sömu skorðum en það er Hannes Haukur sem er sífellt að koma með eitthvað nýtt. Ég er að vísu farinn að hreyfa mig meira. Ég fer út á göngu með Sunnu vinkonu og núna erum við byrjaðar á hlaupaprógrammi og ætlum að reyna að koma okkur í form fyrir sumarið. Óli fékk gullúr á nýafstaðinni árshátíð hjá Bykó sem verðlaun/virðinarvottur fyrir að vera búinn að vera starfsmaður hjá þeim í 10 ár. Árshátíðin var annars mjög skemmtileg og skemmtum við okkur mjög vel.

Ég held að þetta sé bara fínt hjá mér svona í fyrstu færslu. Sjáumst síðar, kveðja

María.


Um bloggið

María Narfadóttir

Höfundur

María Narfadóttir
María Narfadóttir

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...e_zodiac_08
  • Hér er ég!!!
  • Flottust:)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband